Tengdar greinar
Engar tengdar greinar fundust
Hvað gerist ef leigusali gerir kröfu í tryggingaféð mitt?
Leigusalar hafa heimild til að gera kröfur í leiguábyrgðir, sem eru ætlaðar til að tryggja réttar efndir leigusamninga. Þetta getur átt við um greiðslur á leigu eða bætur vegna tjóns á eign. Leiguábyrgðir, s.s. þær sem eru útgefnar af viðurkenndum aðilum á borð við Leiguskjól, veita leigutökum öryggi um að ábyrgð þeirra verði ekki nýtt nema eftir lögmætum ferlum og að leigutakar hafi möguleika á að svara kröfum.
Vegna vanskila á leigu
Algengt er að kröfur vegna leiguvanskila berist fljótlega eftir að greiðsla berst ekki innan tilskilins frests. Leigutakar hafa venjulega sjö daga til að svara slíkri kröfu, annaðhvort með því að leggja fram greiðslukvittun sem sýnir að leigan hefur verið greidd eða með því að greiða útistandandi upphæð. Ef leigan er ekki greidd innan þessa tímaramma getur leigusali nýtt leiguábyrgðina til að mæta vanskilum.
Bótakröfur vegna tjóns
Kröfur vegna tjóns á leiguhúsnæði eru flóknari. Leigusali þarf að leggja fram sönnunargögn sem sýna fram á að tjónið sem leigutaki er sagður hafa valdið sé af hans völdum. Leigutakar hafa fjórar vikur frá því að slík krafa er fram sett til að taka afstöðu til hennar. Ef leigutaki hafnar kröfunni, og leigusali og leigutaki ná ekki samkomulagi, getur leigusali vísað málinu til kærunefndar húsamála eða dómstóla.
Tilkynningarskylda og ábyrgð
Leigusali skal innan fjögurra vikna frá skilum húsnæðis tilkynna leigutaka skriflega um hvort hann geri kröfu í tryggingu eða ábyrgð. Ef leigusali gerir ekki kröfu innan þessa tímaramma fellur tryggingin eða ábyrgðin úr gildi.
Ábyrgðarferli hjá Leiguskjóli
Leigusali hefur fjórar vikur frá skilum húsnæðis eða frá því að leiguábyrgð rennur út til að gera kröfu í ábyrgð hjá leigutaka. Þegar krafan hefur verið kynnt leigutaka hefur leigutaki fjórar vikur til að svara kröfunni, annars telst hún samþykkt. Hafni leigutaki kröfunni innan tímarammans, hvort sem er að hluta eða öllu leyti hefur leigusali fjórar vikur eftir að hann fær svar leigutaka til að meta það hvort hann beri málið undir kærunefnd húsamála eða dómstóla. Mikilvægt er að virða tímafresti sem húsaleigulöggjöfin, húsaleigulög nr. 36/1994, gefa aðilum leigusamninga. Leigutakar eru því hvattir til að svara öllum kröfum skriflega innan fjögurra vikna frá móttöku til að tryggja réttindi sín.
Uppfært 29 maí 2024
Var greinin hjálpleg?